Fannst látin í vatnsfylltum bíl

Kona fannst látin í vatnsfylltum bíl í vegkanti við Ödåkra fyrir utan Helsingborg í Suður-Svíþjóð. Búið er að loka mörgum vegum á Skáni vegna flóða og hefur sænska vegagerðin beðið vegfarendur um að aka ekki inn til Malmö. Skömmu fyrir klukkan átta í morgun fannst bíll í skurði hægra megin við veginn og inni í bílnum var látin kona.

Samkvæmt Dagens Nyheter er ekki ljóst hvernig bíllinn lenti í vatninu en mikill vatnselgur mun hafa verið á veginum. Ekki stóðu nema 30 sentímetrar af bílnum upp úr vatninu.

Að svo stöddu er ekki búið að staðfesta hver konan er, ekki er heldur vitað hvenær hún lést.

Umferðin gengur treglega á Vestur Skáni, tvær hraðbrautir eru opnar, E6 og E22 en það er mikið vatn á þeim á köflum. Mörgum smærri vegum hefur verið lokað vegna flóða við brýr. Um 20 vegum hefur verið lokað alfarið og 50 liggja undir vatni.

Þar sem flóðin eru hvað mest ná þau einum og hálfum metra.

Slökkvilið hefur ekki undan að dæla upp úr kjöllurum og eru komnir langir biðlistar um dælingu upp úr kjöllurum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka