Libby greiðir 250 þúsund dala sekt

Lewis Libby.
Lewis Libby. AP

Lewis Libby, fyrrum skrifstofustjóri Dicks Cheneys, varaforseta Bandaríkjanna, hefur greitt 250 þúsund dala sekt, sem hann var dæmdur til að greiða fyrir meinsæri og fyrir að hindra framgang réttvísinnar. Libby var einnig dæmdur í 30 mánaða fangelsi en George W. Bush, Bandaríkjaforseti, felldi þann hluta dómsins út gildi í byrjun vikunnar.

Að sögn bandarískra fjölmiðla söfnuðu vinir og stuðningsmenn Libbys yfir 5 milljónum dala svo hann gæti greitt málskostnað. Sú fjársöfnun heldur áfram en Libby er sagður hafa greitt sektina úr eigin sjóði. Hann sendi dómstólnum, þar sem dómurinn var kveðinn upp, ávísun fyrir upphæðinni.

John Conyers, þingmaður demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og formaður dómsmálanefndar þingdeildarinnar, hefur boðað yfirheyrslur í næstu viku vegna þeirrar ákvörðunar Bush að fella fangelsisdóminn úr gildi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert