Ráðherra trúmála í Pakistan segir eftirlýsta erlenda hryðjuverkamenn vera á meðal leiðtoga uppreisnarmanna í Rauðu moskunni í Islamabad. Yfirmaður í pakistanska hernum féll í átökum við uppreisnarmenn í moskunni í morgun en a.m.k. tuttugu manns hafa fallið í átökum við moskuna frá því stjórnarher Pakistans umkringdi hana á þriðjudag. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Ráðherrann Ejaz-ul-Haq sagði á blaðamannafundi í dag að um 250 íslamskir öfgamenn leiði uppreisnarmenn í moskunni og að margir þeirra séu erlendir vígamenn. Þá sagði hann tvo til fimm þeirra tengjast umfangsmiklum hryðjuverkamálum í öðrum löndum. Syed Shoaib Hasan, fréttamaður BBC í Islamabad, segir að talið sé að liðsmenn hinna ólöglegu samtaka Jaish-e-Mohammad stjórni í raun aðgerðum uppreisnarmanna í moskunni en samtökin hafa m.a. staðið fyrir nokkrum banatilræðum við Pervez Musharraf, forseta Pakistans.
Abdul Rashid Ghazi, annar æðsti klerkur moskunnar sem talinn hefur verið leiðtogi uppreisnarmanna, heldur því fram að allt að átján hundruð manns séu sjálfviljugir í moskunni og að þeir séu reiðubúnir til að láta lífið fremur en að gefast upp. Yfirvöld í landinu segja hins vegar að fjölda kvenna og barna sé haldið þar nauðugum.