Sir Alan West, nýr öryggismálaráðherra Bretlands, segir að gera megi ráð fyrir að baráttan við öfga- og hryðjuverkamenn taki allt að fimmtán ár. Þá segir hann Breta eiga í höggi við fjölbreyttan hóp hryðjuverkamanna sem byggi hugmyndir sínar á kynþáttafordómum og hafi margir bækistöðvar sínar utan Bretlands. Hann hvatti einnig almenning til að brjóta þá bresku hefð að klaga ekki samborgara sína. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
West, sem er fyrrum yfirmaður í breska hernum, segir í viðtali við blaðið Sunday Telegraph að hann þoli ekki hugtakið "stríð gegn hryðjuverkum enda eigi það engan veginn við um aðstæður dagsins í dag. "Það stendur alls ekki yfir stríð í hefðbundnum skilningi þess orðs. Slík orðanotkun gerir lítið úr raunverulegum stríðum og fjölmörgum öðrum mikilvægum hlutum,” segir hann.
Þá segir hann mikilvægasta verkefni breskra stjórnvalda nú vera að koma í veg fyrir að ungir breskir múslímar snúist til öfgahyggju og að slík barátta verði ekki unnin í skyndi heldur muni hún sennilega taka tíu til fimmtán ár.
Sean Curran, fréttaskýrandi BBC, segir ummælin benda til þess að West telji “stríðið gegn hryðjuverkum” sambærilegt við Kalda stríðið sem hafi verið langtímabarátta ólíkra grundvallarhugmynda.