Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, lokaðist eitt sinn inni á salerni og Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra, þurfti að bjarga honum út. Þetta kemur m.a. fram í dagbókum Alastairs Campbells, fyrrverandi talsmanns Blairs en kaflar úr þeim birtust um helgina.
Þeir Brown og Blair hittust í húsi sameiginlegs vinar þeirra í Edinborg skömmu eftir lát Johns Smiths, leiðtoga Verkamannaflokksins. Erindið var að ræða hvor þeirra ætti að sækjast eftir leiðtogaembættinu.
Í dagbókinni, þar sem vísað er til Browns sem GB og Blairs sem TB, segir: „TB taldi ljóst að hann ætti að bjóða sig fram því það væri flokknum fyrir bestu en GB var ekki sannfærður. Eitt sinn fór GB á salernið.
Mínúturnar liðu og TB sat og snéri þumalfingrunum og hélt um tíma, að GB hefði stungið af án þess að kveðja. Loks hringdi síminn. TB lét hann liggja og þá tók símsvarinn við símtalinu og ójarðnesk rödd heyrðist: Tony, þetta er Gordon. Ég er læstur inni á salerninu.
Þeir hlógu báðir að þessu. TB fór upp og sagði: Þú þarft að dúsa þarna inni þangað til þú samþykkir."
Síðar komust þeir Blair og Brown að samkomulagi á fundi á veitingahúsinu Granita í Lundúnum þar sem Brown féllst á að bjóða sig ekki fram gegn Blair. Fjölmiðlar hafa fullyrt að Blair hafi í staðið heitið því að Brown fengi víðtæk völd sem fjármálaráðherra og að Blair myndi síðar víkja fyrir Brown.