Þriggja ára stúlku sleppt í Nígeríu

Þriggja ára stúlku, sem rænt var í Nígeríu í síðustu viku, hefur verið sleppt úr haldi og er hún komin til foreldra sinna. Segja þau, að stúlkan sé við góða heilsu en sé þakin í moskítóbitum. Mannræningjarnir hótuðu að myrða stúlkuna nema greitt yrði lausnargjald eða faðir hennar gæfi sig þeim á vald. Hann sagði við Sky News í kvöld, að ekkert lausnargjald hefði verið greitt.

David Miliband, utanríkisráðherra Bretlands, sagðist afar ánægður með að stúlkunni hefði verið sleppt. Sagðist hann vera afar þakklátur nígerískum stjórnvöldum fyrir þá aðstoð, sem þau hefðu veitt í málinu og vona að mannræningjarnir þurfi fljótlega að svara til saka.

Stúlkunni, sem heitir Margaret Hill, var rænt á fimmtudag þegar verið var að aka henni í skóla í suðurhluta Nígeríu. Vopnaðir menn réðust á bílinn og tóku stúlkuna og stungu bílstjórann með hnífi þegar hann reyndi að verja hana.

Móðir stúlkunnar, Oluchi Hill, er nígerísk en faðir stúlkunnar, Mike Hill, er breskur og hefur búið í Nígeríu árum saman. Hann starfar við olíuiðnað en rekur einnig vinsælan bar í Port Harcourt.

Margaret Hill er þriðja barnið sem rænt hefur verið á olíuvinnslusvæði Nígeríu á undanförnum sex vikum en það fyrsta sem er af erlendum uppruna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert