Louise Arbour, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, hefur fordæmt það að karlmaður sem fundinn var sekur um hjúskaparbrot í Íran hafi verið grýttur til bana. Að sögn talsmanns mannréttindaskrifstofu SÞ, fór aftakan fram með þessum hætti þrátt fyrir að slíkt hafi verið bannað með lögum í Íran frá árinu 2002.
Mannréttindaskrifstofu SÞ hafa borist fjölmargar ábendingar um að Jafar Kiani hafi verið grýttur til bana þann 5. júlí í nágrenni Teheran en ekki hefur fengist opinber staðfesting á aftökunni frá írönskum stjórnvöldum.
Fregnir af aftökunni bárust tveimur vikum eftir að alþjóðleg mannréttindasamtök óskuðu eftir því að aftöku Kiani og konunnar sem hann átti í ástarsambandi við, Mokarrameh Ebrahimi, yrði frestað en þau hafa setið í fangelsi í 11 ár fyrir hjúskaparbrot sitt.