Kviðdómur kemst ekki að niðurstöðu í máli gegn auðkýfingi

Conrad Black og kona hans, Barbara Amiel Black, ganga út …
Conrad Black og kona hans, Barbara Amiel Black, ganga út úr dómhúsi í Chicago. Reuters

Kviðdómendur í Chicago í Bandaríkjunum tilkynnti dómara í kvöld að þeir myndu ekki komast að einróma niðurstöðu í máli auðkýfingsins Conrads Blacks, sem ákærður hefur verið fyrir allt að 60 milljóna dala fjárdrátt í tengslum við sölu á útgáfufélögum dagblaða í Bandaríkjunum og Kanada.

Dómarinn skipaði kviðdómnum að halda áfram störfum í þeirri von að einhverjir skiptu um skoðun.

Black, sem er 62 ára gamall og stýrði eitt sinn þriðja stærsta fjölmiðlaveldi heims, er einnig ákærður fyrir að láta eignarhaldsfélagið Hollinger International greiða fyrir ýmsa einkaneyslu hans og eiginkonu hans.

Black á yfir höfði sér allt að 91 árs fangelsi verði hann fundinn sekur. Saksóknarar krefjast þess einnig, að lagt verði hald að 92 milljóna dala eignir Blacks.

Black réð á sínum tíma yfir virtum dagblöðum á borð The Daily Telegraph í Lundúnum, Jerusalem Post og Chicago Sun-Times. Að auki átti hann mörg hundruð smærri og svæðisbundin dagblöð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert