Tveir kennarar við sveitaskóla í suðvesturhluta Kína neyddu námsstúlkur til samræðis við eigendur kolanáma, samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum. Annar kennarinn hefur verið handtekinn en hinn flúði áður en til handtöku kom. Sjö aðrir eru í haldi lögreglu í tengslum við málið.
Í samtali við AP fréttastofuna segir kennari við Xinfa-skólann í Guizhou-héraði að eigendur kolanámanna hafi greitt kennurunum tæplega 5 þúsund júan, um 40 þúsund krónur, fyrir að koma þeim í kynni við rúmlega tuttugu stúlkur. Einhver fórnarlambanna hættu í skólanum eftir nauðgunina og aðrar neita að ræða málið við skólafélaga sína, samkvæmt kennaranum sem AP-fréttastofan ræddi við.