Bresk kona segist hafa gift einum af sonum hryðjuverkaleiðtogans Osama bin Laden í Egyptalandi í apríl sl. Konan, sem heitir Jane Felix-Browne og er bæjarfulltrúi í Moulton í Cheshire, er 51 árs og á þrjú börn og sex barnabörn. Þetta er sjötta hjónaband hennar. Omar bin Laden, eiginmaður hennar, er 27 ára.
Felix-Browne sagði í viðtali við bresku blöðin The Times og The Sun, að hún hefði hitt Omar bin Laden, einn af mörgum sonum Osama, þegar hún var í útreiðartúr nálægt píramídanum mikla í Giza í Egyptalandi. Hún var stödd þar í landi til að leita sér lækninga við MS sjúkdómnum.
Hún segir að þau Omar hafi gift sig í samræmi við íslamskan sið bæði í Sádi-Arabíu og Egyptalandi.
Felix-Browne segist hafa gifst syninum en ekki föðurnum. „Ég giftist bara manninum sem ég varð ástfanginn af - í mínum augum er hann bara Omar," sagði hún.
Í viðtali við ITV sjónvarpsstöðina sagðist hún gjarnan vilja hitta tengdaföður sinn og komast að því hvort hann beri í raun ábyrgð á þeim ódæðum sem honum eru kennd.
Hún sagði að eiginmaður sinn, sem starfar sem brotajárnssali, hafi verið alinn upp í Súdan og Afganistan eftir að faðir hans var rekinn frá Sádi-Arabíu. Hún bætti við, að feðgarnir hefðu hist síðast árið 2000. Þá sagði hún við fréttastofuna Sky News, að hún telji sig hafa hitt Osama í samkvæmi í Lundúnum á áttunda áratug síðustu aldar.
Felix-Browne segir að hún sé önnur eiginkona Omars bin Ladens og vonist til að maður hennar fái vegabréfáritun svo hann geti heimsótt hana til Bretlands. Það gæti þó orðið snúið.