Bresk kona segist hafa gifst syni bin Ladens

Osama bin Laden.
Osama bin Laden. Reuters

Bresk kona segist hafa gift einum af sonum hryðjuverkaleiðtogans Osama bin Laden í Egyptalandi í apríl sl. Konan, sem heitir Jane Felix-Browne og er bæjarfulltrúi í Moulton í Cheshire, er 51 árs og á þrjú börn og sex barnabörn. Þetta er sjötta hjónaband hennar. Omar bin Laden, eiginmaður hennar, er 27 ára.

Felix-Browne sagði í viðtali við bresku blöðin The Times og The Sun, að hún hefði hitt Omar bin Laden, einn af mörgum sonum Osama, þegar hún var í útreiðartúr nálægt píramídanum mikla í Giza í Egyptalandi. Hún var stödd þar í landi til að leita sér lækninga við MS sjúkdómnum.

Hún segir að þau Omar hafi gift sig í samræmi við íslamskan sið bæði í Sádi-Arabíu og Egyptalandi.

Felix-Browne segist hafa gifst syninum en ekki föðurnum. „Ég giftist bara manninum sem ég varð ástfanginn af - í mínum augum er hann bara Omar," sagði hún.

Í viðtali við ITV sjónvarpsstöðina sagðist hún gjarnan vilja hitta tengdaföður sinn og komast að því hvort hann beri í raun ábyrgð á þeim ódæðum sem honum eru kennd.

Hún sagði að eiginmaður sinn, sem starfar sem brotajárnssali, hafi verið alinn upp í Súdan og Afganistan eftir að faðir hans var rekinn frá Sádi-Arabíu. Hún bætti við, að feðgarnir hefðu hist síðast árið 2000. Þá sagði hún við fréttastofuna Sky News, að hún telji sig hafa hitt Osama í samkvæmi í Lundúnum á áttunda áratug síðustu aldar.

Felix-Browne segir að hún sé önnur eiginkona Omars bin Ladens og vonist til að maður hennar fái vegabréfáritun svo hann geti heimsótt hana til Bretlands. Það gæti þó orðið snúið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert