George W. Bush, Bandaríkjaforseti, opnaði að nýju í dag fréttamannasalinn í Vesturálmu Hvíta hússins í Washington eftir endurbætur, sem gerðar hafa verið á húsnæðinu. Bush sagði við fréttamenn af þessu tilefni, að hann myndi ekki svara háværum blaðamönnum en sagðist jafnframt vilja bera til baka orðróm um að salurinn væri búinn skotsætum svo hægt væri að losna við blaðamenn sem spyrðu óþægilegra spurninga.
Endurbæturnar hafa staðið yfir í 11 mánuði en aðstaða fréttamanna í Hvíta húsinu hefur ekki þótt upp á marga fiska.
„Velkomin aftur í Vesturálmuna," sagði Bush þegar hann tók fréttamannasalinn formlega í notkun á ný ásamt Lauru konu sinni og Tony Snow, talsmanni forsetaembættisins. „Það lá við ykkar væri saknað."
Forsetinn talaði um nauðsyn frjálsrar fjölmiðlunar en sagði síðan í gamni, að hann myndi ekki svara neinum blaðamönnum sem hrópuðu spurningar. Við þetta stóð hann. Einn blaðamaður spurði Bush um Dick Cheney, varaforseta, og annar um hlutverk fjölmiðla. „Ég svara þessu kannski síðar," sagði Bush.