Fjórmenningarnir dæmdir í lífstíðarfangelsi

Fjórir af þeim sex sem voru ákærðir fyrir samsæri um …
Fjórir af þeim sex sem voru ákærðir fyrir samsæri um að fremja hryðjuverk hafa verið dæmdir í lífstíðarfangelsi Reuters

Dómari í Bretlandi dæmdi fjóra menn í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa ætlað að fremja hryðjuverk í Lundúnum þann 21. júlí 2005, tveimur vikum eftir að 56 létust í sjálfsvígsárásum í borginni. Dómarinn, Adrian Fulford, segir að mennirnir verði að dúsa bak við lás og slá í að minnsta kosti fjörtíu ár áður en þeir eiga möguleika á reynslulausn.

Á mánudag kvað kviðdómur upp þann úrskurð að Muktar Said Ibrahim, 29 ára, Yassin Omar, 26 ára, Ramzi Mohammed, 25 ára og Hussain Osman, 28 ára, væru sekir um samsæri um að standa fyrir hryðjuverkum þann 21. júlí 2005. Mennirnir höfðu lagt á ráðin um árásirnar um nokkurra mánaða skeið, en ákváðu að láta til skarar skríða eftir árásirnar 7. júlí.

Réttað verður á ný yfir Manfo Kwaku Asiedu, 34 ára og Adel Yahya, 24 ára þar sem kviðdómur komst ekki að niðurstöðu í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert