Franskur faðir myrti þrjú börn sín

Franskur þriggja barna faðir játaði í yfirheyrslum lögreglu í morgun að hafa myrt þrjú börn sín á aldrinum 4, 6 og 12 ára. Lík þeirra fundust á heimili þeirra í gær. Foreldrar barnanna höfðu átt í deilum í kjölfar skilnaðar.

Lík barnanna þriggja fundust í gær á heimili þeirra í bænum Montélimar í Drôme sem er í suðurhluta frönsku Alpanna. Faðirinn fannst hins vegar í morgun í norðurhluta Alpanna ásamt vinkonu sinni.

Dagblaðið Libération hefur eftir lögregluyfirvöldum að faðirinn hafi gefið þá skýringu á hinum hræðilega glæp að hann og barnsmóðir hans hafi átt í deilum vegna hjónaskilnaðar sem þau voru að ganga í gegnum.

Þau voru með sameiginlegt forræði yfir börnunum og átti faðirinn að skila börnunum til móður þeirra á mánudagsmorgun. Þegar ekkert varð úr því, hringdi móðirin í lögregluna á miðvikudagsmorgun. Lögreglan fann þá lík barnanna í baðkari heima hjá föðurnum. Talið er að þau hafi verið látin áður en þeim hafi verið komið fyrir í baðkerinu og frönsk lögregluyfirvöld telja að verknaðurinn hafi ekki verið framinn í æðiskasti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert