Konur þjást fremur af svefnleysi en karlar

mbl.is/Þorkell

Mun algengara er að konur þjáist af svefnleysi en karlar, samkvæmt nýrri könnun bandarísku samtakanna The National Sleep Foundation. Aðstandendur rannsóknarinnar telja að orsakanna sé bæði að leita í breytilegri hormónastarfsemi kvenna og félagslegum aðstæðum þeirra. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Af þeim 2.000 konum sem tóku þátt í rannsókninni sögðust tvær af hverjum þremur eiga í erfiðleikum með svefn a.m.k. eina nótt í viku og enn hærra hlutfall sagðist reglulega eiga erfitt með svefn. Einungis helmingur þeirra karla, sem tóku þátt í rannsókninni, sagðist hins vegar eiga við svefnleysi að stríða.

Einnig kemur fram í könnuninni að 80% kvenna sinna öllum sínum störfum jafnvel þótt þær þjáist af svefnleysi og þreytu. Þá segjast tvær af hverjum þremur þeirra drekka mikið af koffíndrykkjum þegar þannig stendur á til að halda sér vakandi. Ennfremur kemur fram í rannsókninni að rúmlega helmingur kvennanna hafði fundið til depurðar síðasta mánuðinn og að ein af hverjum þremur konum, sem tóku þátt í rannsókninni, sagðist kvíða framtíðinni.

Segja aðstandendur rannsóknarinnar að breytingar sem fylgja tíðahring kvenna, meðganga og breytingarskeiðið hafi áhrif á svefn kvenna auk þess sem þær vakni oftar til barna sinna en karlar. Þá benda þeir á að svefnleysi geti stuðlað að annars konar heilsufarsvandamálum.

“Margar nútímakonur eru undir miklu álagi og afleiðingin er sú að þær þjást af streitu sem leiðir til svefnvandamála,” segir Richard Gelula, formaður The National Sleep Foundation. “Þetta gerir það að verkum að þær eiga erfitt með að einbeita sér í vinnu, eru of þreyttar til að njóta kynlífs og hafa lítinn tíma fyrir fjölskyldu og vini."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert