Slökkviliðsmenn sem misstu félaga sína í árásunum á Tvíburaturnana 11.september 2001, gagnrýna Rudy Giuliani, þáverandi borgarstjóra New York, harðlega í nýju myndbandi. Þar eru slæleg viðbrögð Giuliani sögð hafa kostað 121 mannlífið. Borgarstjórinn fyrrverandi sækist nú eftir að vera forsetaefni Repúblikanaflokksins.
Á vef breska ríkisútvarpsins segir að Verkalýðsfélag slökkviliðsmanna (IAFF)hafi látið gera myndbandið sem er 13 mínútur að lengd. Í því komi fram að Giuliani hafi ekki viljað útvegað nothæfar talstöðvar sem hafi hamlað samskiptum manna í millum og að hann hafi beðið með leit að fólki. Hann er líka ásakaður um að hafa ýtt um of á að hraða hreinsunaraðgerðum í kjölfar árásanna, áður en allar líkamsleifar voru fundnar. Einnig er ákvörðun hans um að reisa neyðarskýli í byggingu sem síðar hrundi til grunna gagnrýnd.
Áhrif á kosningabaráttu Guiliani ?
Giuliani er talin vera sigurstranglegur í baráttunni um að verða útnefndur forsetaefni Repúblikanaflokksins. Í myndbandinu er hann hinsvegar gagnrýndur fyrir að misnota árásirnar 11.september í sína þágu og gera þær að þema kosningabaráttu sinnar.
Starfsfólk kosningabaráttu Giuliani hefur mótmælt ásökunum í hans garð og segir verkalýðsfélagið sem stendur að myndbandinu þekkt fyrir stuðning sinn við Demókrataflokkinn. Guiliani hafi um langa hríð stutt baráttu slökkviliðsmanna um öryggismál.