Ástralska lögreglan ákærir lækni í tengslum við hryðjuverkatilraun

Bifreið sem fannst hlaðin sprengiefni í miðborg Lundúna þann 29. …
Bifreið sem fannst hlaðin sprengiefni í miðborg Lundúna þann 29. júní Reuters

Ástralska alríkislögreglan hefur ákært indverskan lækni fyrir að hafa stutt hryðjuverkasamtök eftir að hafa uppgötvað meint tengsl hans við fyrirhugaðar hryðjuverkaárásir í Bretlandi í lok síðasta mánaðar. Er læknirinn, Muhammad Haneef, 27 ára, annar maðurinn sem er ákærður vegna fyrirhugaðra hryðjuverka í Lundúnum og Glasgow þann 29. og 30. júní. Breska lögreglan ákærði hinn manninn, Bilal Abdullah, fyrir aðild að málinu.

Í yfirlýsingu frá áströlsku lögreglunni er Haneef ákærður fyrir að hafa stutt hryðjuverkasamtök. Hámarksrefsing fyrir slíkan glæp er fimmtán ára fangelsisvist.

Haneef mun koma fyrir dómara í Queensland síðar í dag.

Að sögn lögreglu er unnið að rannsókn á tengslum milli Haneef og hinna mannanna sem eru enn í haldi bresku lögreglunnar vegna tveggja bifreiða sem fundust hlaðnar sprengiefni í Lundúnum þann 29. júní og árásar á flugvöllinn í Glasgow daginn eftir.

Haneef, sem kom til Ástralíu frá Bretlandi á síðasta ári til þess að vinna á sjúkrahúsi, er fjarskyldur ættingi Kafeel og Sabeel Ahmed, sem eru í haldi lögreglu í Bretlandi.

Þremenningarnir bjuggu saman í Liverpool í tæp tvö ár áður en Haneef flutti til Ástralíu. Þeir hafa haldið sambandi í gegnum síma og á netinu eftir það. Lögregla segir jafnframt að þeir telji að Haneef og Abdullah þekkist.

Haneef var handtekinn í Brisbane þann 2. júlí er hann var á leið frá Ástralíu með flugmiða aðra leiðina til Indlands. Sagði Haneef að hann væri á hraðferð heim til þess að hitta eiginkonuna og nýfædda dóttur þeirra sem fæddist þann 26. júní. Lögreglan segist ekki trúa þeirri útskýringu hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert