Ástralska alríkislögreglan hefur ákært indverskan lækni fyrir að hafa stutt hryðjuverkasamtök eftir að hafa uppgötvað meint tengsl hans við fyrirhugaðar hryðjuverkaárásir í Bretlandi í lok síðasta mánaðar. Er læknirinn, Muhammad Haneef, 27 ára, annar maðurinn sem er ákærður vegna fyrirhugaðra hryðjuverka í Lundúnum og Glasgow þann 29. og 30. júní. Breska lögreglan ákærði hinn manninn, Bilal Abdullah, fyrir aðild að málinu.
Í yfirlýsingu frá áströlsku lögreglunni er Haneef ákærður fyrir að hafa stutt hryðjuverkasamtök. Hámarksrefsing fyrir slíkan glæp er fimmtán ára fangelsisvist.
Haneef mun koma fyrir dómara í Queensland síðar í dag.
Að sögn lögreglu er unnið að rannsókn á tengslum milli Haneef og hinna mannanna sem eru enn í haldi bresku lögreglunnar vegna tveggja bifreiða sem fundust hlaðnar sprengiefni í Lundúnum þann 29. júní og árásar á flugvöllinn í Glasgow daginn eftir.
Haneef, sem kom til Ástralíu frá Bretlandi á síðasta ári til þess að vinna á sjúkrahúsi, er fjarskyldur ættingi Kafeel og Sabeel Ahmed, sem eru í haldi lögreglu í Bretlandi.
Þremenningarnir bjuggu saman í Liverpool í tæp tvö ár áður en Haneef flutti til Ástralíu. Þeir hafa haldið sambandi í gegnum síma og á netinu eftir það. Lögregla segir jafnframt að þeir telji að Haneef og Abdullah þekkist.
Haneef var handtekinn í Brisbane þann 2. júlí er hann var á leið frá Ástralíu með flugmiða aðra leiðina til Indlands. Sagði Haneef að hann væri á hraðferð heim til þess að hitta eiginkonuna og nýfædda dóttur þeirra sem fæddist þann 26. júní. Lögreglan segist ekki trúa þeirri útskýringu hans.