Tveir öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokks Bandaríkjanna hafa lagt fram frumvarp að lögum sem neyða George Bush, forseta landsins, til þess að gera áætlun fyrir miðjan október um það hvernig hægt sé að fækka í herliði Bandaríkjanna í Írak.
Frumvarp þingmannanna, sem álitin er ögrun við forsetann frá háttsettum aðilum innan flokks hans, var gert í kjölfar þess að bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon, viðurkenndi að sífellt færri íraskar hersveitir geta unnið án hjálpar bandarískra hermanna.
Bush forseti bað þingið um að bíða með kröfur um breytingu á herafla í Írak þar til í september, þegar yfirmenn hersins koma með nýjar upplýsingar um ferli mála.
Gagnrýnisraddir á stríðið í Írak hafa aldrei verið hærri í Bandaríkjunum. Náði deilan hámarki þegar ríkisstjórnin birti árangursskýrslur, sem sýndu að ríkisstjórn Íraks hefur aðeins ná helmingi þeirra átján atriða sem gert er ráð fyrir að hún þurfi til að vera starfhæf.