Forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, tók þátt í skrúðgöngu í París í morgun ásamt fulltrúum allra ríkja Evrópusambandsins. Í dag halda Frakkar upp á þjóðhátíðardaginn, Bastilludaginn. Er þetta í fyrsta skipti sem Sarkozy tekur þátt í skrúðgöngunni sem forseti landsins og bauð hann hermönnum frá öllum aðildarríkjum ESB að taka þátt í ár.
Þjóðhátíðardagurinn 14. júlí nefnist Bastilludagurinn vegna árásarinnar á Bastillu fangelsið þann 14. júlí 1789 þegar æstur múgur réðst inn í fangelsið. Atburðurinn markaði upphaf frönsku byltingarinnar og grunninn að stofnun lýðveldis í landinu.
Sarkozy, stóð í herbíl í göngunni í morgun en skrúðgangan fór meðal annars um Arc de Triomphe og niður Champs-Elysees. Sarkozy nýtti tækifærið til þess að ræða um málefni ESB. Segir hann mikilvægt að stækka sambandið, í ræðu sem hann hélt fyrir varnarmálaráðherra ESB og yfirmenn í her Frakklands, í morgun.
Meðal þeirra sem tóku þátt í skrúðgöngunni í morgun voru Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Javier Solana, sem fer með utanríkismál ESB, Hans-Gert Pöttering,, forseti Evrópuþingsins og forsætisráðherra Portúgals, Jose Socrates, en Portúgal fer með framkvæmdastjórn ESB.