Forseti Rússa segir samning um fækkun í hefðbundnum herafla í Evrópu, (Conventional Forces in Europe Treaty, CFE), vera merkingarlausan og hefur afturkallað þátttöku Rússa í samningnum.
Í yfirlýsingu sem barst frá Kreml segir að afturköllunin sé vegna „sérstakra aðstæðna“ er snúa að öryggi landsins. Rússar hafa haft áhyggjur af áætlunum Bandaríkjamanna um að setja upp eldflaugakerfi í Póllandi og Tékklandi.
CFE samningurinn er talinn vera einn sá mikilvægasti varðandi öryggi Evrópu að sögn talsmanns Atlandshafsbandalagsins (Nato). Hann var samþykktur árið 1992 og takmarkar dreifingu skriðdreka og hermanna ríkja Nato og fyrrum samningsaðila Varsjársamningsins í Austur-Evrópu. Markmið samningsins er að byggja um traust, gagnsæi og samstarf milli aðildarríkjanna.