George W. Bush Bandaríkjaforseti mun í dag boða til alþjóðlegrar ráðstefnu sem ætlað er að endurvekja friðarviðræður í Mið-Austurlöndum, en hún verður haldin komandi mánuðum. Meðal þeirra þjóða sem munu taka þátt í ráðstefnunni er Ísrael og nokkur Arabaríki að sögn bandarískra embættismanna.
Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun stýra fundinum sem verður haldinn einhvertímann í haust að sögn hátt setts ráðgjafa Bush Bandaríkjaforseta.
Meðal þátttakenda verða Ísraelar, fulltrúar palestínsku heimastjórnarinnar auk Arabaríkja sem viðurkenna tilverurétt Ísraels og styðja auk þess myndun palestínsks ríkis sem geti lifað í sátt og samlyndi við hlið Ísraels.
Bush hét því einnig í dag að veita nýrri bráðabrigðstjórn Palestínumanna rúmlega 190 milljón dollara í fjárhagsaðstoð fram í september á þessu ári. Þá hvatti hann önnur ríki til að auka aðstoð sína við Palestínumenn og til stofnunar styrktarhóps Palestínumanna sem í yrðu ríki á borð við Sádi-Arabíu, Jórdaníu og Egyptaland.