Al-Qaeda hryðjuverkasamtökin eru að snúa vörn í sókn í „stríðinu gegn hryðjuverkum“, en þau hafa náð að efla sig þannig að þau geti gert árás á Bandaríkin. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu bandarísku leyniþjónustunnar.
„Niðurstaðan er sú að það er okkar mat að aukin ógn steðjar að Bandaríkjunum,“ segir í skýrslunni.
Skýrslan kemur út nærri sex árum eftir að ríkisstjórn George W. Bush Bandaríkjaforseta einsetti sér að uppræta al-Qaeda hryðjuverkasamtökin, sem eru undir stjórn Osama Bin Laden, eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin þann 11. september árið 2001. Um 3.000 manns létust í árásunum.
Í skýrslunni er bent á að al-Qaeda sé að eflast í Pakistan þar sem samtökin séu hvað sterkust.
Þá býst bandaríska leyniþjónustan við því að samtökin stefni að því að koma liðsmönnum sínum fyrir í Bandaríkjunum.