Dæmdur til dauða í tengslum við þrælahald í Kína

Yfirmaður í múrsteinsverksmiðju í Kína, Zhao Yanbing, var í dag dæmdur til dauða en hann viðurkenndi í síðasta mánuði að hafa drepið geðfatlaðan þræl í verksmiðju sinni.

Alls hefur 576 þrælum verið bjargað úr ánauð í kínverskum fyrirtækjum undanfarið. Talið er að mun fleiri Kínverjar séu í ánauð í landinu enda voru einungis 41 barn meðal þeirra sem voru frelsaðir í síðasta mánuði. 28 voru í dag dæmdir í fangelsi fyrir þrælahald í fyrstu réttarhöldunum af mörgum í hneykslismáli sem nýverið kom upp í Kína.

Voru dómarnir allt frá tveggja ára fangelsisvist til lífstíðarfangelsis. Að sögn dómarans er ekki hægt annað að beita hörðum refsingum í máli sem þessu, máli sem hafi valdið titringi bæði innanlands sem utan. Með því einu sé hægt að hindra að slíkt gerist aftur.

Málið kom upp í síðasta mánuði er foreldrar fjögur hundruð barna settu inn sameiginlega tilkynningu á Netið þar sem þeir leituðu barna sinna sem höfðu verið seld í þrældóm í Shanxi-héraði og nágrenni í Kína. Í kjölfarið hóf lögregla leit að börnum sem störfuðu í þrælakistum og fjölmiðlar birtu myndir af þrælum sem var bjargað úr múrsteinsverksmiðum. Voru margir þeirra svo máttfarnir að þeir gátu ekki staðið í fæturna.

Þrælar sem bjargað var úr ánauð í síðasta mánuði
Þrælar sem bjargað var úr ánauð í síðasta mánuði AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert