Haneef vísað frá Ástralíu að réttarhöldum loknum

Peter Russo, lögmaður Mohammed Haneef, yfirgefur fangelsið í Brisbane þar …
Peter Russo, lögmaður Mohammed Haneef, yfirgefur fangelsið í Brisbane þar sem Haneef er í haldi. Reuters

Kevin Andrews, ráðherra innflytjendamála í Ástralíu, segir að indverska lækninum Mohammed Haneef verði vísað úr landinu hvort sem hann verður sakfelldur eða sýknaður af ákæru um aðstoð við hryðjuverkamenn. Haneef er nú í haldi lögreglu í Brisbane. Til stóð að honum yrði sleppt gegn tryggingu í gær þar sem dómari sagði ekki nægileg rök fyrir því að halda honum vegna gruns um tengsl við meinta hryðjuverkamenn í Bretlandi. Andrews tilkynnti hins vegar í kjölfar dómsins að landvistarleyfi hans hefði verið afturkallað og að hann yrði því færður í vörslu innflytjendayfirvalda.

Andrews sagði í morgun að Haneef verði í landinu uns réttarhöld yfir honum hafa farið fram. „Eftir það mun hann verða sendur úr landi nema fram hafi komið ný gögn í málinu,” sagði hann.

Haneef, sem hefur starfað á ríkisreknu sjúkrahúsi í Queensland, er sakaður um að hafa látið mann sem grunaður er um aðild að hryðjuverkaáormum í Bretlandi fá símakort sitt. Þá kemur fram í gögnum sem lögð hafa verið fram í máli hans að hann hafi reglulega haft samband við frænda sinn Sabeel Ahmed allt fram til 26. júní sl. Einnig mun hann hafa staðfest að Kafeel Ahmed hafi lánað honum 300 sterlingspund árið 2004 til að hann gæti greitt próftökukostnað.

Andrews lét afturkalla landvistarleyfi Haneefs eftir að dómari í Brisbane féllst a að sleppa honum gegn tryggingu í gær og stóð þá til að Haneef yrði fluttur í innflytjendabúðir í útjaðri Sidney. Til þess hefur þó ekki enn komið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka