Líffæragjöfum fjölgaði verulega í kjölfar sjónvarpsgabbs

The Big Donor Show reyndist vera gabb.
The Big Donor Show reyndist vera gabb. Reuters

Um 12.000 manns hafa skráð sig sem líffæragjafa í Hollandi eftir sýningu sjónvarpsþáttar þar sem líffæragjafar kepptu um nýra. The Big Donor Show, sem var sýndur 1. júní, reyndist vera gabb sem ætlað var að vekja athygli á skorti á líffæragjöfum í landinu.

Hollenskir fjölmiðlar hafa greint frá því sprenging hafi orðið í kjölfar þáttarins og líffæragjöfum fjölgað mikið frá því þátturinn var sýndur. Meðalmánaðatölur yfir fjölgun líffæragjafa er um 3-4.000 manns.

Í þættinum umdeilda kepptu þrír alvöru sjúklingar um nýra, en þeir tóku þátt í gabbinu.

Þátturinn gekk út á það að dauðvona kona átti að velja einn sjúkling sem átti að fá eitt nýra að henni látinni.

Þátturinn olli talsverðu fjaðrafoki í Hollandi og kölluðu ýmsir stjórnmálaflokkar eftir því að hætt yrði við útsendingu hans. Sjónvarpsstjórar BNN sögðu hinsvegar að þættinum væri ætlað að varpa ljósi á þann skort sem væri á líffæragjöfum í landinu.

Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert