Að minnsta kosti fimmtán vegfarendur létust í Brasilíu

Frá slysstaðnum á Congonhas flugvelli í Sao Paulo í Brasilíu.
Frá slysstaðnum á Congonhas flugvelli í Sao Paulo í Brasilíu. Reuters

Ekki liggur enn ljóst fyrir hversu margir létu lífið í flugslysinu í Brasilíu í gærkvöldi en þó er ljóst að flugslysið er það mannskæðasta í sögu landsins. 170 farþegar og sex manna áhöfn voru um borð í vélinni en auk þeirra er nú talið að fimmtán vegfarendur hafi látið lífið er vélin rann út af flugbrautinni, yfir fjölfarinn veg við flugvöllinn og hafnaði á bensínstöð handan hans.

Mikil sprenging varð er vélin rakst á bensínstöðina og eru aðstæður á slysstað sagðar mjög erfiðar og hiti í flakinu allt að 1.000 gráður. Fjörutíu lík hafa fundist á slysstaðnum, þar af 25 í vélinni en yfirvöld segja engar líkur á að nokkur þeirra sem var í vélinni hafi komist lífs af. Tíu manns að minnsta kosti eru slasaðir á sjúkrahúsum eftir slysið en enginn þeirra var í vélinni.

Vélin var af gerðinni Airbus A320 og var að koma frá bænum Porto Alegre í suðurhluta landsins. Mikil rigning var er vélin kom til lendingar á Congonhas flugvelli í Sao Paulo og er talið að hún hafi runnið út af hálli flugbrautinni. Á mánudagskvöld rann lítil flugvél út af flugbraut á vellinum við svipaðar aðstæður

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka