Evrópusambandið: Svíar hygla bjórframleiðendum

Evrópusambandið hefur komist að þeirri niðurstöðu að Svíar hygli innlendum bjórframleiðendum með því að hafa álagningu á vín hærri en á bjór. Það var yfirdómari í Evrópudómstólnum í Lúxemborg sem komst að þessari niðurstöðu í dag. Sænska ríkisstjórnin hefur enn sem komið er ekki brugðist við úrskurðinum.

Dómarinn, Paolo Mengozzi komst að þeirri niðurstöðu að samkeppnisstaða evrópskra vínframleiðenda væri slakari sökum þess að bjórinn væri ódýrari valkostur fyrir neytendur.

Sænska ríkisstjórnin hefur haldið því fram að munurinn á álagningunni væri það lítill að það hefði ekki áhrif á val neytenda.

Samkvæmt fréttavef Dagens Nyheter hefur verið lagt fram mikið af tölfræðilegum gögnum í málinu en niðurstaða yfirdómarans er sú að vínið hefur verri samkeppnisstöðu í Svíþjóð sökum hærri álagningar.

Beðið er eftir lokaniðurstöðu Evrópudómstólsins sem þarf ekki að vera sú sama og dómarans þó að í flestum tilvikum sé hún það.

Sænskir góðtemplarar segja að Svíar ættu að fá að ráða sinni eigin verðlagningu á áfengi og leggja áherslu á að skatturinn á vín verði ekki lækkaður og fara fram á að skattur á bjór verði frekar hækkaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert