Breska lögreglan leitar nú að réttmætum eiganda 65.400 evra (sem samsvarar um fimm og hálfri milljón kr.) sem voru fyrir mistök send unglingi sem hafði pantað sér Playstation 2 leikjatölvu, að andvirði 11.000 kr., í gegnum uppboðsvefinn eBay.
Peningarnir voru í kassa sem var sendur á heimili drengsins í Aylsham í Norfolk í mars sl., en leikjatölvuna var hvergi að sjá, segir á vef BBC.
Foreldrar drengsins höfðu samband við lögreglu og ekki leið á löngu þar til rannsóknarlögreglumenn voru mættir á staðinn. Þeir töldu seðlana og lögðu hald á þá á meðan málið er í rannsókn.
Dómari hefur veitt lögreglunni í Norfolk frest fram í september til að geyma peningana þar málið kemur á borð dómstóla á ný.
Ef enginn vitjar evranna þá er mögulegt að fjölskyldan geti óskað eftir því að fá að halda peningunum.