Vatnsforði fannst í Darfur

Vísindamenn hafa fundið mikinn vatnsforða neðanjarðar í Darfur.
Vísindamenn hafa fundið mikinn vatnsforða neðanjarðar í Darfur. Reuters

Gríðarlega mikill vatnsforði hefur fundist neðanjarðar í Darfur-héraði í Súdan og binda menn vonir við að nýting þeirrar auðlindar gæti bundið enda á blóðugar deilur í héraðinu. Vatnið er talið vera á stærð við 30.750 ferkílómetra stöðuvatn sem jafngildir einum þriðja af flatarmáli Íslands.

Fréttavefur BBC hefur eftir vísindamönnum við Boston Háskóla að borað verði eftir vatninu á um 1000 stöðum en þar kemur jafnframt fram að fréttaskýrendur telji að barátta arabískra hirðingja við afríska bændur um auðlindir héraðsins liggi til grundvallar að átökunum sem hafa kostað meira en 20 þúsund íbúa lífið og gert um tvær milljónir manna landflótta.

Ratsjá og gervitunglamyndir voru notaðar við að finna vatnsforðann en svipuð uppgötvun var gerð í Egyptalandi þar sem brunnar hafa verið nýttir til að veita vatni á um 150 þúsund ekrur uppræktaðs lands.

Á undanförnum 40 árum hefur eyðimörkin skriðið fram um 100 kílómetra á þessum slóðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert