Bandarískir hermenn sakaðir um morð í Írak

Bandarískur hermaður í Kirkuk
Bandarískur hermaður í Kirkuk AP

Tveir bandarískir hermenn hafa verið ákærðir fyrir morð af yfirlögðu ráði í borginni Kirkuk í Írak í síðasta mánuði. Þá hefur bandarískur hermaður verið fundinn sekur um mannrán og manndráp en hermaðurinn Trent Thomas er einn átta manna sem sakaðir eru um að hafa myrt Írakann Hashim Ibrahim Awad í bænum Hamdaniya í apríl á síðasta ári. Hann var hins vegar sýknaður af ákæru um morð af yfirlögðu ráði.

Thomas var sýknaður af ákæru um morð af yfirlögðu ráði þar sem sannað þótti að hann hafi talið sig vera að fylgja fyrirmælum yfirmanns síns Lawrence G Hutchins III er hann fór ásamt Hutchins og tveimur öðrum inn á heimili Awads og hafði hann á brott með sér. Hermennirnir fóru síðan með Awad að skurði þar sem þeir skutu hann til bana.

Fimm hermenn hafa játað á sig brot í málinu og hafa þeir þegar hlotið dóma. Á næstu vikum verður hins vegar réttað yfir Hutchins og áttunda manninum.

Ekki hefur verið greint frá málavöxtum í máli hermannanna Trey Corrales og Christopher Shore, sem ákærðir voru í morgun, en þeir sitja nú í varðhaldi í Kúveit. Þó hefur verið greint frá því að þeir hafi verið ákærðir eftir að kvartanir bárust frá félögum þeirra. Einnig hefur yfirmaður þeirra verið lækkaður í tign, vegna vantrausts hersins á hæfni hans til að gegna yfirmannsstöðu. Hann er þó ekki sakaður um glæpsamlegt athæfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert