George W. Bush, Bandaríkjaforseti sagðist í dag hafa íhugað en hætt við að senda bandarískt herlið til Darfur héraðs í Súdan, til að koma í veg fyrir þjóðarmorð.
Sagðist Bush hafa tekið þá ákvörðun að senda ekki bandarískan her til Darfúr eftir að hafa ráðfært sig við bandamenn, bandaríska þingmenn og mannréttindafrömuði, hann hafi þá verið orðinn sannfærður um að slíkt væri ekki rétt ákvörðun.
Bush gagnrýndi hins vegar seinagang Sameinuðu þjóðanna við að koma aljþjóðlegu friðargæsluliði til Darfur til aðstoðar við illa búið lið Afríkubandalagsins.
Sagðist Bush hafa rætt málið við Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóra SÞ. Þetta er hægt og þreytandi ferli í þá átt að draga stjórnvöld þar til ábyrgðar fyrir það sem aðeins ein þjóð í heiminum hefur kallað þjóðarmorð, og það erum við", sagði Bush við blaðamenn í Nashville í dag.
Talið er að ekki færri en 200.000 manns hafi látist af völdum stríðs og hungurs frá því að átök brutust út í héraðinu árið 2003.