Feðgar með málmleitartæki fundu fjársjóð í Jórvíkurskíri í Bretlandi og telja sérfræðingar að þetta séu merkilegustu dýrgripir frá tímum víkinga sem fundist hafa þar í landi síðast liðin 150 ár.
David og Andrew Whelan fundu fjársjóðinn sem er frá 10. öld í Harrogate í janúar síðast liðnum.
Fréttavefur BBC skýrði frá því að fjársjóðurinn hefði verið sendur til sérfræðinga á British Museum þar sem sérfræðingar segja hann vera stórbrotinn.
Feðgarnir hafa stundað það að fara út með málmleitartækin sín á laugardögum sér til dægrastyttingar, þeir sögðust hafa fengið mjög sterkt merki á tækin sín á akrinum þar sem þeir fundu síðan bolla með 617 silfurpeningum.
Auk peninganna voru 65 aðrir gripir sem munu vera upprunnir víða að, frá Afganistan, Írlandi, Rússlandi og Skandínavíu og meginlandi Evrópu.
Smærri gripirnir eru í mjög góðu ásigkomulagi þar sem þeir voru geymdir í potti sem var falinn í blýkassa.
Meðal silfurpeninganna eru nokkrir mjög sjaldgæfir peningar sem varpa að sögn nýju ljósi á sögu Englands.
Fjársjóðurinn sem dómstóll hefur lýst eign ríkisins verður nú metinn af óháðum aðila og munu British Museum og safnasjóður Jórvíkurskíris hefja fjáröflun til að geta keypt fjársjóðinn til að geta sýnt hann almenningi.
Andvirði fjársjóðsins verður síðan deilt niður á landeigendur og hina fundvísu feðga.