Íransk-bandarískir fræðimenn í haldi tjá sig í sjónvarpi

Haleh Esfandiari í viðtali í írönsku sjónvarpi
Haleh Esfandiari í viðtali í írönsku sjónvarpi AP

Tveir íransk-bandarískir fræðimenn sem verið hafa í haldi í Íran í rúma þrjá mánuði komu fram í sjónvarpi þar í landi í dag þar sem þeir ræddu þátt sinn í bandarískum „aðgerðum sem miðuðu að því að skapa óstöðugleika innan írönsku stjórnarinnar”.

Viðtölin við fólkið er seinni hluti sjónvarpsþáttar þar sem leitast er við að tengja fræðimenninga við tilraunir Bandaríkjamanna til að hrinda af stað friðsamlegri byltingu í landinu.

Haleh Esfandiari, önnur þeirra sem er í haldi, viðurkenndi í þættinum að hafa tekið þátt í slíkum aðgerðum í þeim tilgangi að veikja íslamska stjórn landsins, sagði hún viðtalið tækifæri til að „koma málum sínum á hreint”.

Esfandiari, sem er 67 og í forsvari fyrir verkefni um Miðausturlönd við Woodrow Wilson stofnunina í Washington í Bandaríkjunum, sagðist í viðtalinu hafa unnið að því að mynda tengsl milli stofnana og rannsóknarstofnana í Bandaríkjunum og Íran.

Í viðtalinu sagðist hún síðan hafa komist að þeirri niðurstöðu að hún og aðrir hafi myndað óeðlileg tengsl í nafni lýðræðis, í nafni kvenréttinda og viðræðna, þessi tengsl hafi hefðu hins vegar á endanum orðið til þess að valda breytingum innan íranska stjórnkerfisins, sem hefðu veikt stjórnina.

Bandarísk stjórnvöld hafa sakað Írana um að þvinga fram opinberar játningar fólksins og er búist við hörðum viðbrögðum vegna sjónvarpsþáttarins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert