Að minnsta kosti nítján manns létu lífið í tveimur sprengjutilræðum í Pakistan í morgun. Tólf létu lífið er sprengja sprakk í bænum Hub, 35 km norður af Karachi í suðurhluta landsins, og sjö létu lífið og tuttugu slösuðust í sjálfsvígssprengjuárás við lögregluskóla í bænum Hangu í norðvesturhluta landsins. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Sprengingunni í Hub virðist hafa verið beint sérstaklega gegn kínverskum verkamönnum en mörg sprengjutilræði í landinu að undanförnu hafa beinst gegn þeim. Allir þeir sem létust í sprengingunum í morgun voru hins vegar Pakistanar.
Uppreisnarmenn í Balochistan-héraði í suðurhluta landsins eru andvígir stórfelldum framkvæmdum á vegum pakistönsku alríkisstjórnarinnar í héraðinu en margar þeirra eru unnar af kínverskum fyrirtækjum.