Innanríkisráðherra Bretlands, Jacqui Smith, viðurkenndi í útvarpsviðtali í morgun að hún hefði reykt kannabis á háskólaárum sínum, fyrir 25 árum. „Ég reykti nokkrum sinnum, ég tel að það hafi verið rangt af mér,” sagði Smith í samtali við Sky fréttastofuna í kjölfar útvarpsviðtalsins.
Smith sagðist hafa reykt hass og þó að hún hafi ekki snert eiturlyf í 25 ár þá afsakaði það ekki hegðun hennar.
„Ég er ekki að predika yfir neinum, ég braut lögin,” sagði hún í viðtalinu. Hún sagði jafnframt að Gordon Brown, forsætisráðherra hefði ekki spurt hvort hún hefði neytt eiturlyfja er hann bauð henni ráðherrastöðuna.
Þetta kom fram í kjölfar tilkynningar forsætisráðherrans um að hann íhugaði nú að herða lög um neyslu kannabis-efna.