Dæmdir í lífstíðarfangelsi fyrir sæmdarmorð

Banaz Mahmod.
Banaz Mahmod.

Faðir tvítugrar stúlku og föðurbróðir hennar voru í dag dæmdir í lífstíðarfangelsi í Bretlandi fyrir að hafa myrt hana í janúar á síðasta ári. Eiga þeir möguleika á reynslunáðun eftir rúm 20 ár. Þriðji maðurinn var einnig dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið en hann á möguleika á náðun eftir 17 ár.

Banaz Mahmod hvarf af heimili sínu í Mitcham í suðurhluta Lundúna í janúar í fyrra. Lík hennar fannst þremur mánuðum síðar í tösku sem grafin hafði verið í garði í Birmingham. Faðir hennar, Mahmod Mahmod, og bróðir hans Ari, en þeir eru Kúrdar frá Írak, fengu Mohamad Hama til þess að myrða hana eftir að þeir komust að því að hún átti í ástarsambandi við Kúrdann, Rahmat Sulemani, en fjölskylda hennar var mjög á móti sambandinu.

Við réttarhöldin kom fram að stúlkunni hafði verið nauðgað og misþyrmt hrottalega áður en hún lést af völdum sára sinna.

Banaz hafði ítrekað samband við lögreglu þar sem hún bað um hjálp þar sem hún óttaðist um líf sitt en ekki var tekið mark á beiðni hennar. Hún gaf lögreglunni upp nöfn á fimm mönnum sem hún taldi að henni og unnustanum stafaði hætta af. Meðal þeirra var Hama, sem játaði á sig morðið við yfirheyrslur.

Við réttarhöldin yfir mönnunum voru sýnd myndskilaboð frá stúlkunni þar sem hún sagðist óttast um líf sitt. Upptakan var frá því er hún lá á sjúkrahúsi eftir misheppnaða morðtilraun föður hennar, að því er fram kemur á Sky sjónvarpsstöðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka