Ísraelar hófu í morgun að sleppa Palestínumönnum úr fangelsi í Ísrael. 120 menn voru fluttir úr Ketziot-fangelsinu í suðurhluta Ísraels í rútum til Vesturbakkans í morgun en til stendur að 256 liðsmönnum Fatah hreyfingar Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna, verði sleppt í dag. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Miðstjórn Frelsissamtaka Palestínumanna (PLO) heimilaði Abbas í gær að skipuleggja forseta- og þingkosningar eftir að Hamas náði Gaza-svæðinu á sitt vald. Leiðtogi Hamas sagði hins vegar að hreyfingin myndi hindra kosningarnar. "Með því að flýta kosningunum er verið að sniðganga vilja palestínsku þjóðarinnar og þessi tilraun er dæmd til að mistakast," sagði hann.