Jarðfræðingar deila um það hvort nokkuð vatn sé í hinu gríðarstóra stöðuvatni sem uppgötvaðist nýlega í Darfur-héraði í Súdan. Alain Gachet sem hefur rannsakað berglög í Afríku í tvo áratugi telur að stöðuvatnið hafi þornað upp fyrir mörg þúsund árum síðan.
Gachet sagði í samtali við BBC að trúlegast væri þó hægt að finna nægilegt magn af vatni annarstaðar í Darfur til að binda enda á deilurnar í héraðinu.
Á miðvikudaginn tilkynnti Farouk El-Baz hjá Boston háskólanum að hann hefði fengið fjárstyrk hjá ríkisstjórn Súdans til að hefja tilraunaboranir eftir vatni í hinu ný-uppgötvaða stöðuvatni.
Gachet telur hinsvegar að dældin sem El-Baz og vísindamennirnir hjá Boston háskólanum hafa fundið í Darfur hafi verið full af vatni fyrir 5 – 25 þúsund árum síðan og sagði hann að berglögin á þessum stað væru þess eðlis að mjög ólíklegt væri að þau héldu vatni enn þann dag í dag.