Hæstiréttur Pakistans komst að þeirri niðurstöðu í morgun að dómarinn Iftikhar Chaudhry skuli skipaður aftur í dómaraembætti en Chaudhry var sviptum embætti í mars að kröfu Pervez Musharrafs, forseta Pakistans. Tíu dómarar hæstaréttar komust að þeirri niðurstöðu að skipa ætti Chaudhry í dómaraembætti að nýju en þrír dómarar voru því mótfallnir. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Þá var öllum ákærum gegn dómaranum vísað frá en hann var m.a. sakaður um misbeitingu valds.
Dómurinn þykir töluvert áfall fyrir Musharraf, sem sætt hefur harðnandi gagnrýni að undanförnu, en fjölmennar mótmælasamkomur stuðningsmanna Chaudhry hafa orðið einn helsti vettvangur stjórnarandstöðu í landinu á undanförnum mánuðum.
Mál Chaudhry hefur vakið mikla eftirtekt í Pakistan en stuðningsmenn hans segja mál hans vera tilraun framkvæmdavaldsins í landinu til að brjóta dómsvaldið undir sig.