Nicolas Sarkozy, nýr forseti Frakklands, og Gordon Brown, nýr forsætisráðherra Bretlands, lýstu því yfir eftir fund sinn í Elysee höllinni í París í morgun að þeir hefðu áhuga á að fara saman til Darfur-héraðs í Súdan til að reyna að ýta á eftir því að staðið verði við þá friðarsamninga, sem gerðir hafa verið í héraðinu.
Þá sagði Brown eftir fundinn að leiðtogarnir ætli að taka höndum saman um knýja það í gegn að að friðargæslulið Afríkusambandsins og Sameinuðu þjóðanna taki við friðargæslu í héraðinu. Sagði hann ríkin reiðubúin til að veita umtalsverða fjárhagsaðstoð um leið og virkt vopnahlé verði komið á í héraðinu.
Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna á svæðinu lýstu í morgun áhyggjum af því að það hörmungarástand sem ríki í Darfur-héraði sé að teygja anga sína yfir landamærin til Mið-Afríkulýðveldisins.
Þrjúhundruð þúsund flóttamenn frá Darfur hafa komið yfir landamærin til Mið-Afríkulýðveldisins á undanförnum mánuðum á flótta undan átökum og árásum í héraðinu en flest mun flóttafólkið hafa farið yfir landamærin í kjölfar loftárása súdanska stjórnarhersins á suðurhluta Darfur í maí. Þá hafa hjálparstarfsmenn á svæðinu lýst sérstökum áhyggjum af því að flokkar uppreisnarmanna hafi einnig sést handan landamæranna.
Um 200.000 flóttamenn frá Darfur eru einnig í nágrannaríkinu Tsjad.