Spænskur dómstóll skipaði í dag svo fyrir að hald yrði lagt á öll eintök af vikuritinu El Jueves sem fór í sölu á miðvikudaginn var. Á forsíðu blaðsins sem er háðs- og ádeilublað er að finna skopmynd af Felipe krónprins og konu hans Letiziu í samfarastellingu.
Hæstaréttardómarinn Juan del Olmo kvað upp þann dóm að skopmyndin væri árás á heiður og virðingu fólksins sem hún væri af.
Tímaritið sem hefur aldrei farið í grafgötur með samúð sína með lýðveldissinnum notaði forsíðuna til að hæðast að ákvörðun ríkisstjórnarinnar að greiða foreldrum 2,500 Evrur fyrir hvert nýfætt barn til að reyna að efla fæðingartíðni landsins.
Á skopmyndinni segir krónprinsinn brosandi í faðmlögum við konu sína: „Gerir þú þér grein fyrir að ef þú verður ólétt þá er þetta næst því sem ég hef komist launaðir vinnu á ævinni!”
Felipe krónprins er 39 ára og er giftur fyrrum sjónvarpsstjörnu, Letizíu. Þau giftu sig með mikilli viðhöfn 2004 og eiga tvö börn.
Á Spáni geta þeir sem eru dæmdir fyrir að ærumeiða eða rægja konungsfjölskyldun átt von á allt að tveggja ára fangelsisdómi og sektum.