Talið er að tjón vegna sprengingar í gufuleiðslu á Manhattan, miðborg New York borgar, á miðvikudagskvöldið geti numið hundruð milljónum dala þar sem mörg fyrirtæki í nágrenninu hafa þurft að hafa lokað frá því sprengingin varð. Gert er ráð fyrir að hreinsunarstarfið taki einhverja daga en mörg stórfyrirtæki eru með höfuðstöðvar sínar þar í nágrenninu. Almenningi hefur ekki verið hleypt inn á svæðið næst gígnum sem myndaðist við sprenginguna og því liggur starfsemi margra fyrirtækja niðri á meðan hreinsunarstarfi stendur.
Gígur myndaðist í götuna á Lexington Avenue við sprenginguna og gufa, leðja og grjót þeyttust um allt. Einn starfsmaður Pfizer lyfjafyrirtækisins lést í sprengingunni en Pfizer er með höfuðstöðvar sínar á þessum slóðum.
Gufan úr leiðslunni sem sprakk hefur verið nýtt til húshitunar og loftkælingar í byggingum eins og Empire State Building, Rockefeller Center og húsnæði Sameinuðu þjóðanna.
Að sögn Michael Bloomberg, borgarstjóra New York, er gert ráð fyrir að hreinsunarstarfinu ljúki í næstu viku. Hann staðfestir að sprengingin hafi haft slæm áhrif á starfsemi fyrirtækja á svæðinu. Ekki liggur ljóst fyrir hvað olli sprengingunni en unnið er að rannsókn málsins.