Konunglegi breski flugherinn hefur verið kallaður út til aðstoðar lögreglu og björgunarsveitum sem vinna hörðum höndum að því að koma hundruðum einstaklinga til aðstoðar í kjölfar skyndiflóða í Bretlandi. Fólkið hefur hvorki komist lönd né strönd vegna flóðanna, en mikið hefur rignt í landinu að undanförnu.
Tvær þyrlur flughersins auk þyrlu bresku landhelgisgæslunnar hafa aðstoðað við að koma fólki til bjargar í Gloucester, Stratford-upon-Avon og Evesham.
„Við höfum bjargað yfir 100 manns,“ sagði talskona flughersins. „Við höfum bjargað fólki úr ám og einstaklingum sem voru strandaðir á litlu landi umkringdir vatni. Auk þess höfum við komið fólki til bjargar sem hafðist við á þökum hjólhýsa,“ sagði talskonan.
Fréttavefur Reuters greindi frá þessu.