Íranska utanríkisráðuneytið sagði í dag að „játningar“ tveggja Bandaríkjamanna af írönsku bergi brotnu sýni fram á áætlanir Bandaríkjanna að steypa klerkastjórninni í Íran af stóli. Játningarnar koma fram í sjónvarpsþætti sem var sýndur í Íran í síðustu viku.
Íranska ríkissjónvarpið sýndi á miðvikudag og fimmtudag sjónvarpsþátt sem kallast „Í nafni lýðræðisins“. Í þættinum eru viðtöl við Haleh Esfandiari og Kian Tajbakhsh, sem Íranar saka um að vera viðriðnir áætlanir Bandaríkjanna um að hefja „flauelsbyltingu“ í landinu.
Bandarísk stjórnvöld hafa mótmælt þessu en þeir segja að játningarnar hafi verið þvingaðar fram. Bandaríkin hafa hvatt Írana til þess að sleppa mönnunum, sem eru búsettir í Bandaríkjunum, en þeir voru handteknir hvor í sínu lagi í maí þegar þeir voru í heimsókn í Íran.
Talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins, Mohammad Ali Hosseini, segir að þátturinn sanni að Bandaríkin hafi lengi ætlað sér að steypa stjórninni af stóli í Íran.
Fréttavefur Reuters greinir frá þessu.