Ríkisstjórn Ísraels hefur lagt blessun sína yfir kennslubók þar sem fram kemur í fyrsta sinn fordæming Palestínumanna á stofnun Ísraelsríkis árið 1948.
Fram kemur í kennslubókinni, sem verður aðeins verður kennd í skólum Araba í Ísrael, að Palestínumenn lýsi stofnun Ísraelsríkis sem „stórslysi“. „Kynna þarf bæði útgáfur Ísraela og Palestínumanna,“ sagði menntamálaráðherra Ísraels, Yuli Tamir.
Hægrimenn hafa fordæmt útgáfu kennslubókarinnar en Arabar í Ísrael hafa hinsvegar fagnað henni, en þeir segja að allir skólar ættu að nota bókina við kennslu. Í bókinni er m.a. bent á það að „sumir Palestínumenn hafi verið reknir á brott í kjölfar sjálfstæðisbaráttunnar og að margir Arabar hafi átt land sem hafi verið tekið ófrjálsri hendi,“ segir menntamálaráðuneyti Ísraels.
Palestínumenn kalla stofnun Ísraelsríkis árið 1948 „al nakba“ eða stórslysið. Hundruð þúsunda Araba neyddust til þess að flýja land vegna stríðsins. Þeir hafa sakað Ísrael um að hrifsa landið undan þeim.
Þá kemur einnig fram í kennslubókinni að leiðtogar Araba hafi hafnað tillögu Sameinuðu þjóðanna um að landinu yrði skipt í palestínsk og ísraelsk svæði. Leiðtogar gyðinga samþykktu hinsvegar þessa tillögu.
Fréttavefur BBC greindi frá þessu.