Talning atkvæða hafin í Tyrklandi

Tyrkir, ungir sem aldnir, fjölmenntu á kjörstaði í dag. Alls …
Tyrkir, ungir sem aldnir, fjölmenntu á kjörstaði í dag. Alls eru 42 milljónir Tyrkja á kjörskrá. AP

Kjörstöðum í Tyrklandi hefur verið lokað og nú hefur verið hafist handa við að telja atkvæðin sem voru greidd í þingkosningunum í dag. Eitt helsta efni kosningabaráttunnar eru átökin milli veraldlega sinnaðra Tyrkja, sem vilja halda fast í aðskilnað ríkis og íslams, og trúaðra múslíma.

Kosningunum, sem var flýtt, er ætlað að leysa það pólitíska neyðarástand sem skapaðist í kjölfar þess að tyrkneska þinginu mistókst að sameinast um forsetaframbjóðanda, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Veraldlegir flokkar í landinu og herinn, sem er mjög öflugur í landinu, komu í veg fyrir að einn frambjóðandi yrði útnefndur en hann naut stuðnings íslamska AK-flokksins.

Þeir héldu því fram að veraldarhyggju stafaði hætta af þessu, en því vísaði AK-flokkurinn alfarið á bug.

„Lýðræðið mun styrkjast eftir þessar kosningar,“ sagði Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, við blaðamenn þegar hann greiddi atkvæðið sitt í Istanbúl.

Um 42 milljónir manna voru á kjörskrá og gátu þeir kosið á milli 14 flokka sem vilja komast á þing, en þingsætin eru 550 talsins.

Kosningarnar hófust kl. sjö að staðartíma (kl. fjögur í nótt að íslenskum tíma) í austurhluta Tyrklands. Aðrir kjörstaðir í landinu opnuðu klukkustund síðar. Það er skylda að taka þátt í kosningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert