Alræmdur glæpamaður felldur

Indverska lögreglan hefur fellt einn alræmdasta glæpamann landsins, en maðurinn hafði verið eftirlýstur áratugum saman vegna um 200 glæpa sem hann framdi. Morð, fjárkúganir og mannrán er á meðal þess sem maðurinn hafði unnið sér til saka á lífsleiðinni.

Shiv Kumar, sem er einnig þekktur sem Dadua, og níu félagar hans létust þegar til átaka kom á milli lögreglu í skógi í ríkinu Uttar Pradesh, sem er í norðausturhluta landsins, í gær. Að sögn talsmanns innanríkisráðuneytisins fékk lögreglan ábendingu um hvar mennina væri að finna.

Önnur glæpaklíka sat hinsvegar fyrir lögreglumönnunum er þeir hugðust snúa tilbaka í Chitrakoot. Að sögn lögreglu voru tveir úr klíkunni skotnir til bana. Lögreglan missti hinsvegar sex menn.

Dadua, sem var 58 ára, eftirlýstur fyrir 185 glæpi sem hann framdi sl. 30 ár. Hann er sagður hafa haft mikil völd í ríkinu en hann er sagður tengjast nokkrum háttsettum stjórnmálamönnum vinaböndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert