Brown útilokar ekki hernaðaraðgerðir gegn Írönum

Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, á fyrsta reglulega blaðamannafundi sínum sem …
Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, á fyrsta reglulega blaðamannafundi sínum sem forsætisráðherra í dag. Reuters

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, vill ekki útiloka að gripið verði til hernaðaraðgerða gegn Írönum en kveðst þó vonast til að ný ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna verði til þess að Íranar gefi eftir í kjarnorkumálinu. „Ég hef fulla trú á því að sú stefna okkar að beita þá refsiaðgerðum muni virka en ég ætla ekki að lýsa því yfir að einhvers konar aðgerðir séu útilokaðar,” sagði hann á sínum fyrsta blaðamannafundi frá því hann tók við embætti forsætisráðherra.

„Ég trúi því staðfastlega að refsiaðgerðirnar sem við erum að grípa til gegn Írönum séu þegar farnar að hafa áhrif. Við verðum síðan að fara yfir það hvað við gerum í framhaldinu. Þriðja ályktunin um Íran verður sennilega samþykkt innan skamms og ég trúi því að við séum á réttri leið," sagði hann. Þá bað hann Írana um að reyna að skilja ótta alþjóðasamfélagsins vegna kjarnorkuáætlunar þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert