Flóðin á Englandi eru á meðal þeirra mestu sem mælst hafa í landinu sl. 60 ár. Stór landsvæði eru nú undir vatni og hundruð þúsunda Englendinga verða brátt án neysluvatns og rafmagns. Umhverfisstofnun landsins hefur sent út níu viðvaranir vegna flóðahættu. Stór hluti Worcesterskíris, Gloucesterskíris og Warwickskíris er nú undir vatni eftir úrhellið sem verið hefur undanfarna daga. Þá fer vatnsyfirborð áa víða hækkandi.
„Þetta neyðarástand er ekki að baki [...] vegna þess að vatnið sem hefur fallið af himnum ofan rennur nú niður árfarvegina,“ sagði Hilary Benn, umhverfisráðherra Bretlands í samtali við BBC.
Áin Severn hefur bólgnað út en vatnsyfirborðið er fimm metrum hærra en venjulega á þessum árstíma. „Við höfum ekki séð flóð í líkingu við þetta áður,“ sagði talsmaður umhverfisstofnunar. Flóðin nú eru þau mestu frá árinu 1947.
Þá hefur hefur vatnsmagnið í ánni Thames aukist mikið af völdum mikilla rigninga og hefur vatnið runnið í ána í gegnum Oxfordskíri. Á föstudag mældist úrkoman vera rúmir 12 cm, en hún hefur ekki mælst meiri frá því mælingar hófust á svæðinu árið 1968.
Blogg Einars Sveinbjörnssonar um rigningarnar