Liðsmaður Hamas gagnrýnir valdarán samtakanna á Gasa

Palestínskar stúlkur með hárbönd Hamas-samtakanna krefjast lausnar palestínskra fanga úr …
Palestínskar stúlkur með hárbönd Hamas-samtakanna krefjast lausnar palestínskra fanga úr ísraelskum fangelsum á Gasasvæðinu í dag. Reuters

Háttsettur liðsmaður Hamas-samtakanna á Vesturbakkanum segir það hafa verið rangt af liðsmönnum samtakanna á Gasasvæðinu að taka völdin á svæðinu með hervaldi. Þá segir hann ákveðinn hóp manna innan samtakanna vera að leita leiða til að stuðla að friði á milli Hamas-samtakanna og Fatah-hreyfingarinnar. Fréttaskýrendur segja ummæli hans bera vott um vaxandi spennu innan samtakanna. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Maðurinn, Ahmed Douleh, segir að í fyrstu hafi liðsmenn Hamas á Vesturbakkanum fundið til samkenndar með samherjum sínum á Gasasvæðinu sem hafi viljað brjótast undan oki spilltra yfirvalda. Stuðningur þeirra hafi hins vegar minnkað þegar Hamas-liðar á Gasasvæðinu gripu til vopna. Á meðan við búum við hernám eigum við ekki að grípa til vopna í innbyrðis átökum,” segir Douleh sem var leystur úr fangelsi á Vesturbakkanum í gær.

Þá segir hann það valda sér áhyggjum hvaða afleiðingar atburðirnir á Gasasvæðinu muni hafa á Hamas-samtökin og líf fólks á svæðinu.

Douleh var einn fjölmargra liðsmanna Hamas-samtakanna á Vesturbakkanum sem liðsmenn Fatah-hreyfingar Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna, handtóku eftir að Hamas-samtökin tóku völdin á Gasasvæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert