Sheik Hassan Nasrallah, leiðtogi Hizbollah hreyfingarinnar, sagði í dag að samtökin hefðu yfir að ráða eldflaugum sem næðu í „hvert horn” Ísraelsríkis, þar á meðal Tel Aviv. Þetta kemur fram í viðtali sem tekið var við Nasrallah í tilefni þess að ár er liðið síðan mánaðarlangt stríð samtakanna við Ísraela hófst.
Í viðtalinu heldur Nasrallah því fram að aðgerðir Ísraela í Líbanon hefðu ekki dregið úr hernaðarmætti Hizbollah og að hreyfingin hafi þá þegar átt slíkar eldflaugar, en ákveðið hafi verið að nota þær ekki.
Nasrallah hefur áður sagt að Hizbollah-liðar hafi aukið mjög vopnaeign sína frá því að stríðinu í Líbanon lauk á síðasta ári. Í ræðu sem hann hélt í október á síðasta ári sagði Nasrallah herskáa meðlimi hreyfingarinnar hafa yfir að ráða um 33.000 eldflaugum.